Annars er allt gott að frétta frá Berlín, við erum aðallega í skýjunum eftir alveg frábærlega skemmtilegt hlaup. Börkur er búinn að kjafta frá einhverjum af tímunum okkar sem við erum sjálf bara mjög ánægð með. En þeir eru svona í gersamlega tilviljanakenndri röð: Sigurður 4:23:00, Einar 4:05:42, Steini 4:13:20, Vilborg 04:33:54 og Fríða 04:30:26. Fréttaritarinn asnaðist til að gleyma öllum myndavélasnúrum heima þannig að þótt aragrúi af myndum sé til, þá komast þær ekki í tölvuna fyrr en á laugardaginn. En, sem betur fer voru fleiri með myndavélar og þessar myndir eru í boði Margrétar Ólafsdóttur.
Eyrarskokkarar svakalega kúl og töff við Brandenburger Tor ásamt sumum afkvæmum og foreldrum að fara að ferðast með neðanjarðarlestum á leið Á messu til að ná í keppnisgögn. Ef það hefði staðið Í messu, þá hefðum við kannski verið að fara í kirkju, en nei, við vorum bara á leiðinni á gríðarlega stóra hlaupamessu þar sem maður gat slefað yfir hlaupafötum á svipuðu verði og á klakanum og keypt það sem gleymst hafði heima. Og náttúrulega skoðað auglýsingar um öll þessi skemmtilegu maraþon víðsvegar um heiminn sem við ætlum að taka þátt í næsta árið. Já, og hundrað kílómetra hlaupum. Fréttaritarinn sá nú ekki lengri hlaup en það í boði, kannski Hamfarahlaupið verði með bás þarna á næsta ári?
Nú, og Eyrarskokkarar í skýjunum eftir hlaupið. Það sést ekki á myndinni að við snertum ekki jörðina. Sigurður, sendu mér mynd af ykkur feðgum svo þetta geti haft almennilegt heimildagildi.
