10.11.08

Nýr staður

Lífið er langhlaup og góðir hlutir gerast hægt. Og margt lærir maður á langri ævi. Eitt af því sem ég hef orðið að kyngja núna nýlega er að blogspot hentar illa til að hýsa blogg Eyrarskokks. Þannig að nú ætlum við að færa okkur um set og blogga á:

http://eyrarskokk.blog.is

Sú síða á að virka og allir eiga að geta skrifað athugasemdir svo fremi fólk geti reiknað einföld dæmi eins og ellefu plús fjórir. Látið nú endilega ljós ykkar skína svo Valur sé ekki á eintali þarna inni.

29.10.08

Nú er það svart - allt orðið hvítt

Það blæs ekki byrlega fyrir Einfaranum (Eyrarskokkari í útlegð) á Tröllaskaga. Einfaranum er orðin ljós merking nafngiftarinnar Trölla-skagi það eru bara tröll sem skaga uppúr snjósköflunum á þessum stað.
Það er alkunna að Einfarinn lætu ekkert stoppa sig þegar hlaup eru annarsvegar, hjá honum eru fastar æfinga þrisvar í viku og þá er stokkið af stað. Þannig var það líka um daginn, á slaginu 17.15 stökk vinurinn í gallan og æddi útí veðrið í mót norðan bálinu og hamaðist sem vitfyrrtur væri, þvílíkur var spretturinn. Eftir heljarorustu gegn Kára og öllu hans hyski varð Einfarinn að játa sig sigraðann enda stóð lítið af honum uppúr nema trínið, þarf þá nokkuð til því maðurinn er eitthvað á annan metra.
Til marks um hversu veðurhamurinn var mikill þá mældist hlaupavegalengdin 57,5 m á tímanum 32:28 mín. Hann hefði tekið mynd en hafði engan kubb...

Þið munið svo eftir Súpufundinum á næsta laugardag í Átaki, æfing kl. 9:30, pottur eftir æfingu, súpa eftir pott kl. 11:30-12:00, Berlínarfarar segja sögur. Allir hlauparar velkomnir. (súpan kostar 700kr.)
Kveðja úr Fjallabyggð, Valur Þór

26.10.08

Vetrarhlaup UFA og súpufundur

Heilir og sælir Eyrarskokkarar þá er fyrsta Vetrarhlaupi UFA lokið og stóð það svo sannarlega undir nafni, því vetur konungur hefur gert sig heimakominn, svona rétt til að árétta hvar við búum. Það var ekkert leiðinlegt að hlaupa (tippla) þó maður skrypplaði í hverju skrefi, þetta er partur af uppákomunni að búast við hveju sem er. Það var líka ánægjulegt að hitta gamla hlaupafjélaga bæði úr Eyrarskokki og aðra sem maður hefur hlaupið með á undanförnum árum. Tilvera Eyrarskokks hefur svo sannarlega sínt framá mikilvægi sitt á Akureyri t.d. voru 1/3 hlauparanna í Vetrarhlaupinu hlauparar sem æfa reglulega með Eyrarskokki og þó nokkrir í viðbót sem koma af og til á æfingar, enda er öllum frjálst að koma hvenær sem er, bæði til að hlaupa reglulega og eða bara til að taka stakar æfingar.

Súpufundur
Eitt af því sem við Eyrarskokkarar höfum gert til að styrkja félagslegu hliðina er að hittast á s.k. súpufundum einu sinni í mánuði yfir vetrartímann, þá er mætt á laugardagsæfingu kl. 9:30, farið í heitapottinn í Átaki á eftir og borðuð súpa í hádeginu. Við höfum gjarnan fengið einhvern til að tala um reynslu sína af hlaupum eða verið með kynningu og fræðslu. Fyrsti súpufundur vetrarins verður á laugardaginn 1. nóvember eftir æfingu og pott (byrjar c.a. 11:30-12:00) súpan kostar 700kr. Að þessu sinni ætlum við að fá Berlínarfara 2008 til að rabba um hlaupið og aðdraganda þess.
Nýjustu fréttir
Hlauparar hafa ekkert farið varhluta af ástandi mála í þjóðfjélaginu undanfarið frekar en aðrir landsmenn. Allt er á hraðri niðurleið og bölsýni plagar landann sem aldrei fyrr. Til að létt brúnina á hlaupurum þá vil ég benda á tækifæri sem fylgja ástandinu, það hefur lengi verið talið til þrekrauna að hlaupa heilt maraþon en nú er von fyrir þjóðina að vera fyrsta þjóðin til að ná því marki að 85% þjóðarinnar fari maraþon. Ég hef það eftir áræðanlegum heimildum að vegna hruns bankanna verði næsta Glitnismaraþon 4.2km...

Kveðja, Valur Þór

P.S. ég hef verið að velta fyrir mér hversvegna svo fáir commentera á síðuna okkar, til að auðvelda ykkur það þá er það gert þannig, klikka á "comment" undir frétt, skrifið ykkar athugasemd með nafni, síðan klikkið þið á "nafnlaust" og síðan á "PUBLIS YOUR COMMENT". Látið nú í ykkur heyra, Eyrarskokkarar og aðrir.

20.10.08

Vetrarhlaup UFA

Um næstu helgi er fyrsta Vetrarhlaup UFA og hefst það kl. 11:00, hlaupið er frá Bjargi, gaman væri að sjá sem flesta, helst alla, Eyrarskokkara mæta (ég er með 60 á póstlista). Það sem meira er, er að nú er boðið uppá liðakeppni, sjá nánar www.ufa.is mér finnst að við Eyrarskokkarar ættum að hafa nokkur lið bæði í kvenna og karla flokkum, við mætum bara tímalega á laugardaginn og ákveðum hverjir verða saman í liði. Eru ekki allir tilbúnir í fjörið?
Það er kostur við Vetrarhlaupið að það er alltaf farinn sami hringurinn maður getur þ.a.l. fylgst með framförum og getu, tilgangurinn með hlaupinu er ekki síst að gefa hlaupurm á öllum getustigum tækifæri á að hittast og hlaupa saman sér til skemmtunar og gleði (ég er ekki viss um að allir hafi sama skilning á skemmtun og hlauparar...) og etja kappi við aðra eða sín persónulegu markmið.
Skokkhópurinn Einfarinn mætir enda búinn að vera í ströngu prógrami yst á Tröllaskaga. Kv. Valur Þór

15.10.08

Einfarinn og Eyrarskokkari 2008 -Dr. Jekyll and Mr. Hyde

Skokkhópurinn Einfarinn hefur verið nokkuð virkur í Austurbæ Fjallabyggðar nú er búið að setja á fastar æfingar á mán. og mið. kl. 17:15 og lau. kl. 09:30. 100% mæting hefur verið á þær allar að undanskildu síðustu tveimur æfingum, á laugardaginn brá svo við að hópurinn þrefaldaðist og á mánudaginn fjölgaði um helming þegar Dísa vinkona mætti. Það hefur nefnilega kvisast út að HLAUPARI sé kominn í bæinn. Nú er rætt um að breyta nafni hópsins í Fjallaskokk með vísan í Fjallabyggð og ekki síst landslagið því hér hleypur maður annaðhvort út og suður eða upp og niður, semsagt kjöraðsæður til æfinga. Svo er stundum hressilegur norðan garri eða slydduél sem herðir mann bara upp (þá sleppir maður sjósundinu).
Hinsvegar hefur Eyrarskokkari 2008 verið frekar framlágur undanfarið, hann hefur þjáðst af samviskubiti yfir að vera fjarri Eyrarskokki mæta ekki á æfingar með Eyrarskokki nema þá eitthvað um helgar. Hann þjáist líka af meðvirkni og aumingjagæsku og ímyndar sér að enginn annar geti annast hópinn, í öðrulagi þá er Eyrarskokkara 2008 uppfullur af hroka og mikilmennsku, hann heldur því blákalt fram að hópurinn lognist útaf í leiðindum þar sem hans nýtur ekki við til að halda uppi gleði og hressleika. Undirritaður biður ykkur kæru Eyrarskokkarar að taka ekki nærri ykkur bölsýni Eyrarskokkara 2008, heldur halda áfram að mæta hress og kát, maður er manns gaman, líka á hlaupum.
Kv. frá Tröllaskaga, Valur Þór

P.s. það væri gaman að fá fleiri skrifara á síðuna t.d. sendar sögur, fréttir frá hlaupum. það er hægt að senda á netföngin á síðunni.

4.10.08

Eftir 42 km í Berlín


Myndband í boði Silju Christensen (mamma sín í kvennahlaupsbol)

30.9.08

Haustfagnaður

Góðan daginn ágætu Eyrarskokkarar!

Eins og við höfum áður tilkynnt er næsti laugardagur, 4. október, frátekinn fyrir haustfagnað Eyrarskokkara. Við ætlum sumsé að gera okkur glaðan dag saman – þ.e. þeir sem geta og vilja. Haustið hefur bankað dálítið óþyrmilega á dyrnar og samkvæmt veðurspá verða veðurguðirnir í heldur fúlu skapi til vikuloka. Við teljum því rétt að halda okkur í byggð að þessu sinni og fresta því til betri tíma að glíma við Hlíðarfjallsveginn.

Planið er þetta:

Kl. 15.30 – Skokkað frá Átaki að Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit (mig minnir að það sé um 13 km).

Þegar komið verður að Hrafnagili stingur mannskapurinn sér til sunds. Reiknum með klukkutíma eða svo í afslappelsi í sundlauginni.

Kl. 17.30 – 18.00 verður liðið ferjað í bæinn.

Klukkan 19.00 er planaður dinner á veitingastaðnum Strikinu (verðum með norðursal út af fyrir okkur ef við verðum nægilega mörg).

Matseðill:

Fordrykkur

Villisveppasúpa

Nautasteik / kjúklingur (val)
Heit súkkulaðikaka með rjóma/ís

Verð: Kr. 4.800


Það er ljóst að einhver góður maður tekur að sér að ferja dót fólks í bíl fram á Hrafnagil (föt, sundföt o.fl.). Þessum flutning verður sumsé reddað.


Þið sem annað hvort viljið skokka á laugardaginn og/eða fara í dinnerinn á Strikið, vinsamlegast svarið þessum pósti. Við þurfum sumsé að vita fjölda þátttakenda vegna fólksflutninga frá Hrafnagili og einnig þurfum við að láta þá á Strikinu vita af fjölda fólks í mat eigi síðar en um hádegi á föstudag. Þess vegna þarf ég að vera búinn að fá svar eigi síðar en á fimmtudagskvöld. (Makar velkomnir)


Bestu kveðjur,

Undirbúningsnefndin – Óskar Þór og Gugga